Hvað er tæknitexti?

Það sem við köllum „tæknitexta“ er texti sem fjallar um tæknilegt efni og inniheldur sérhæft orðalag og málsnið. Þýðingar á tæknitexta eru því oftast meira krefjandi en þýðingar á samfelldum texta, þar sem þær krefjast meiri sérþekkingar og aukinnar rannsóknarvinnu. Auk þess þarf oft að gæta að lengd textans til að hann passi innan tiltekins svæðis. Sem dæmi um þýddan tæknitexta sem við sjáum á hverjum degi má nefna viðmót í hugbúnaði, vefkerfi og ýmsar leiðbeiningar fyrir vörur og hugbúnað.

 

Hvað ber að hafa í huga þegar tæknitexti er sendur til þýðingar?

Gættu að lengdinni

Engin tvö tungumál geta tjáð sömu hugmyndina í jafnmörgum orðum eða stafabilum. Þar sem megnið af þeim tæknitexta sem er skrifaður í heiminum er á ensku ber að hafa í huga að texti lengist oft í þýðingu, jafnvel um allt að 30%, sem hefur áhrif á það pláss sem textanum er ætlað. Önnur tungumál sem notast við myndletur, eins og kínverska, eru hins vegar mun styttri. Því þarf að gera ráð fyrir að textareitir geti stækkað (eða minnkað) eftir þýðingu. Ef ætlunin er að forðast slíkt þurfa upplýsingar um lengdartakmarkanir að fylgja með frumtextanum.

 

Nýttu þér sjálfvirkni

Þýðingaforrit bæta skilvirkni og samræmi þýðinga. Ef um er að ræða texta sem er í sífelldri endurskoðun og er því uppfærður reglulega geta þýðingaforrit sparað umtalsverðan tíma og kostnað og minnkað líkurnar á mannlegum mistökum. Með þýðingaforritum er einnig auðveldara að áætla kostnað og tíma sem fer í hvert verk í upphafi.

 

Undirbúðu frumtextann fyrir þýðingu og skilgreindu markhópinn

Fátt er jafnmikilvægt og umsjón með hugtakanotkun þegar kemur að tækniþýðingum. Stíll og uppbygging frumtextans hafa áhrif á gæði þýðingarinnar. Hafðu setningar stuttar, skýrar og markvissar og tryggðu að rétt hugtök séu notuð alls staðar þar sem það á við. Veittu þýðandanum aðgang að handbók um stíl og orðabók eða orðalista fyrirtækisins þíns, ef slíkt er til staðar. Ef svo er ekki, og fyrirséð að þýða þurfi mikið efni, gæti verið góð hugmynd að ákveða stílbragð textans. Er ætlunin að textinn verði einfaldur og auðlæsilegur til að ná til hins almenna notanda? Eða er markhópurinn sérfræðingar á viðkomandi sviði? Allt sem gæti hjálpað þýðandanum að fá tilfinningu fyrir tóni og orðanotkun fyrirtækisins skilar sér í betri þýðingu.

Þumalputtareglan er að alltaf ætti að vinna með þau frumskjöl sem textinn var settur upp í. Ef texti er skrifaður í Word ætti að senda Word-skrána til þýðingar. Ef texti er settur upp í InDesign ætti að senda InDesign-skjalið til þýðingar. Ef upprunalegar skrár eru ekki til staðar þarf að búa til nýjar, sem getur verið tímafrekt ferli. Skjöl sem send eru til þýðingar ættu að vera fullunnin, þ.e. uppsetningu ætti að vera lokið. Ef svo er ekki þarf ekki aðeins að setja upp frumskjalið, heldur einnig þýdda skjalið.

 

Reynsla okkar af tækniþýðingum

Við höfum unnið um árabil með og fyrir mörg af stærstu tæknifyrirtækjum heims. Hvort sem það eru leiðbeiningar fyrir heimilistæki, vinnuvélar, snjallsíma eða hugbúnað, þá kunnum við til verka og höldum vel utan um sértækt orðalag fyrir hvern viðskiptavin.