Það fer varla fram hjá neinum að víða í heiminum ríkir neyðarástand, ýmist til lengri eða skemmri tíma. Flestir kannast við hjálparsamtök á borð við Lækna án landamæra, en færri hafa sjálfsagt heyrt um „þýðendur án landamæra“, enda eru þýðingarstörf í eðli sínu vinna sem fer fram á bak við tjöldin, ef svo má segja.

Þýðingar á upplýsingaefni og miðlun upplýsinga á móðurmáli nauðstaddra eru þó gríðarlega mikilvægur hluti af öllu hjálpar- og mannréttindastarfi. Samtökin Translators Without Borders (TWB) voru sett á fót til að sinna þessu veigamikla starfi og liðsinna nauðstöddu fólki um heim allan, miðla upplýsingum um neyðarástand og greiða fyrir aðgengi að mikilvægum upplýsingum á móðurmáli þeirra sem á þurfa að halda.

Frá stofnun samtakanna hafa verið þýddar rúmlega 42 milljónir orða í sjálfboðavinnu.

Translators Without Borders reiða sig á aðstoð frá víðtæku samfélagi sjálfboðaliða sem ljá starfi samtakanna dýrmæta starfsorku sína og þekkingu. Yfir 3.800 þýðendur leggja TWB lið.

Skopos ehf. er hluti af gríðarstóru teymi sjálfboðaliða um víða veröld sem leggja TWB til tíma og færni þýðenda.

Translators Without Borders þurfa aðstoð fleiri þýðenda og þeir íslensku þýðendur sem vilja leggja sitt af mörkum eru hvattir til að kynna sér starfsemi samtakanna og hafa samband. Upplýsingar má nálgast hér: http://translatorswithoutborders.org.

Hvers vegna er starf TWB svona mikilvægt?

„Þarftu að komast til læknis?“

„Hvað heitir þú?“

„Það þarf að sjóða vatnið til að gera það neysluhæft“

Einfaldar spurningar, samskipti og upplýsingamiðlun gegna lykilhlutverki í hjálparstarfi, en gagnast lítt ef fólk skilur ekki spurningarnar eða upplýsingarnar.

Markmið TWB er að tryggja fólki aðgang að aðstoð og upplýsingum á móðurmáli þess, veita bráðaaðstoð í neyðaraðstæðum, byggja upp færni við þýðingar hjá íbúum á hverjum stað og auka skilning almennings á mikilvægi upplýsingamiðlunar og þeim hindrunum sem tungumálaörðugleikar geta falið í sér.

TWB gerði könnun í Kenía til að rannsaka vægi þýðinga í baráttunni gegn ebóluveirunni. 200 einstaklingar voru spurðir fjögurra einfaldra spurninga um ebóluveiruna. 8% þeirra svöruðu rétt. Því næst var þeim sýnt viðvörunarspjald um ebóluveiruna með enskum texta. Þá hækkaði hlutfall réttra svara í 24%. Þá var 100 manna samanburðarhópi sýnt sama veggspjald, þýtt á tungumál sem töluð eru á svæðinu, og sá hópur sem fékk upplýsingarnar á eigin móðurmáli svaraði 92% spurninganna rétt.

Þegar jarðskjálftinn mikli reið yfir Nepal í apríl 2015 gegndu samfélagsmiðlar gífurlega veigamiklu hlutverki við miðlun upplýsinga. Innan örfárra mínútna birtust neyðarköll á slíkum miðlum og almenningur brást skjótt við. TWB setti af stað bráðateymi sem fylgdist með prentmiðlum og samfélagsmiðlum í landinu og þýddi yfir 500 hugtök á nepölsku, newari og hindí fyrir björgunarsveitirnar. Þýðingum á Twitter-skilaboðum með veigamiklum upplýsingum um skyndihjálp og neyðarviðbrögð við og í kjölfar jarðskjálfta var dreift um allt landið. Frekari upplýsingar um hjálparstarfið í Nepal eru hér.

Þetta eru aðeins tvö dæmi um það hvernig þýðendur geta gegnt lykilhlutverki við neyðaraðstæður.

Hvað er Words of Relief?

Words of Relief er viðbragðsnet þýðenda við neyðaraðstæður, hið fyrsta sinnar tegundar, sem ætlað er að bæta samskipti við samfélög á meðan eða eftir að neyðaraðstoð er veitt, með því að yfirstíga tungumálaörðugleikana sem oft torvelda lífsnauðsynlegt hjálparstarf. Þetta gera Translators Without Borders með því að:

  • þýða veigamiklar upplýsingar á nauðsynleg tungumál áður en neyðarástand kemur upp
  • byggja upp þéttriðið net þýðenda sem geta brúað tungumálagjár og eru þjálfaðir í neyðarhjálp

Words of Relief var sett á fót til reynslu frá janúar 2014 til apríl 2015 í Naíróbí í Kenía, með sérstakri áherslu á svahílí og sómölsku. Áætlunin útvegaði þýðinga- og túlkaþjónustu til samstarfssamtaka á sviði mannúðarstarfa og þjálfaðir túlkar og þýðendur á vettvangi önnuðust samræmingu starfsins milli samstarfsaðila og unnu að því að staðla hugtakagrunna til að auka gæði upplýsinganna sem urðu til.

Words of Relief-vinnulíkanið hefur síðan verið notað með góðum árangri til að aðstoða bágstadda við margs konar neyðaraðstæður um heim allan, svo sem í ebólufaraldrinum í Vestur-Afríku og þegar jarðskjálftinn reið yfir í Nepal. Bráðaviðbragðsteymi fyrir arabísku, farsí, grísku, kúrdísku og úrdú veita sem stendur vandaða bráðaþjónustu við þýðingar fyrir hjálparsamtök á flóttamannaleiðinni gegnum Evrópu. Daglega starfar fjöldi þjálfaðra sjálfboðaliða samhliða fjölmiðlasamtökunum Internews að því að þýða veigamiklar upplýsingar um móttökubúðir og ferjuleiðir, texta á upplýsingaskilti fyrir hjálparmiðstöðvar og lífsnauðsynlegar upplýsingar um heilbrigðismál.

Kynntu þér Words of Relief, skipulag og starfsaðferðir nánar hér.