Töluverð umræða hefur verið um stöðu íslenskunnar í tæknivæddum nútímanum og hvaða áhrif það hafi þegar fólk er farið að tala við tækin sín í síauknum mæli. Hingað til hafa tækin fæst talað né skilið íslensku og því þurfa íslenskir tækninotendur að bregða fyrir sig ensku eða öðrum málum ætli þeir að tala við þau.

Nýverið auglýsti hins vegar bandaríska risafyrirtækið Amazon eftir málfræðingum/forriturum til að vinna við þróun talgreiningar og máltækni fyrir stafræna aðstoðarmanninn Alexa og var auglýst eftir Íslendingi í þeim hópi. Amazon Alexa getur unnið úr margvíslegum raddskipunum, t.d. leitað að upplýsingum á vefnum, pantað þjónustu, stjórnað samhæfum búnaði á borð við ljós og hljómtæki, spilað tónlist og margt fleira. Flestir sem hafa kynnst Alexa hafa sennilega gert það í gegnum snjallhátalarann Amazon Echo, en Amazon seldi milljónir eintaka af honum á árinu 2016.

Í auglýsingunni er óskað eftir málfræðingum sem tala íslensku að móðurmáli, hafa góða þekkingu á hljóðfræði og hljóðkerfisfræði og eru vel að sér í forritun, m.a. reglulegum segðum og skipanalínum í Unix/Linux.

Hvaða möguleika á íslenskan?

Eins og staðan er í dag stendur raddskipanatækni Íslendingum einfaldlega ekki til boða. Þannig er ekki hægt að panta leigubíl, pítsu eða bók í gegnum stafrænan aðstoðarmann á íslensku, ekki er hægt að biðja Spotify að spila uppáhaldslagið sitt eða spyrja hvar síminn manns sé. Bent hefur verið á að litlar líkur séu á að Íslendingar geti það í framtíðinni og séu því einfaldlega að heltast úr lestinni þegar kemur að þessari tækni. Jafnvel hefur verið gengið svo langt að spá íslensku stafrænum dauða þegar fram líða stundir.

Nýlega birtist í Vísi viðtal við Guðmund Hafsteinsson, framkvæmdastjóra hjá Google, þar sem fjallað var um þessa nýju raddskipanatækni og spurt hvort til stæði að bjóða upp á þjónustu Google-aðstoðarmannsins (Google Assistant) á íslensku í bráð. Í máli hans kom fram að ólíklegt væri að svo færi, einfaldlega vegna smæðar landsins og hvort það borgaði sig að leggja út í gríðarlega mikla og kostnaðarsama vinnu fyrir svo lítinn notendahóp. Sem stendur er þessi þjónusta einungis í boði á ensku og þýsku og morgunljóst að íslenskan er aftarlega á forgangslistanum ef litið er til notendafjölda.

Það hlýtur því að teljast fagnaðarefni að stórfyrirtæki á borð við Amazon hafi í hyggju að ráða til sín íslenska málfræðinga, bæði fyrir almenna notendur sem sjá mögulega fram á að geta í framtíðinni rætt við tækin sín á móðurmálinu og eins fyrir þá sem eru uggandi yfir stöðu íslenskunnar gagnvart þessari þróun.

Besta leiðin til að koma íslenskunni að hjá stórfyrirtækjum á þessu sviði er líklega sú að gerast frumkvöðlar á sviði máltækni og djúptauganets (e. deep learning), og í fyrrnefndu viðtali kom fram að Ísland gæti náð forskoti á því sviði á fimm árum ef íslenskir háskólar og stjórnvöld legðu áherslu á það með mögulegu samstarfi við erlend tæknifyrirtæki. Háskóli Íslands og Háskólinn í Reykjavík eiga nú þegar í samstarfi um nám í máltækni, í Háskólanum í Reykjavík er unnið að talgreiningarverkefni sem á að vera opið og öllum frjálst til afnota og ríkisstjórnin ákvað í fyrra að leggja fimm milljónir króna í undirbúning máltækniverkefna. Þetta eru allt spor í rétta átt en þó er væntanlega þörf á miklu stærra átaki til að draumurinn um íslenska talgreiningu og spjall við ísskápa og þvottavélar á hinu ástkæra ylhýra verði að veruleika.

Fyrir málfræðinga/forritara sem hafa áhuga á að taka þátt í að gera Alexu kleift að skilja íslensku má benda á að umsóknarfrestur er til 31. mars næstkomandi.