Við kaup á þýðingum og ákvarðanir þeim tengdar eru nokkur atriði sem þarf að hafa í huga. Með því er oft hægt að lækka þýðingakostnað töluvert auk þess að spara tíma og fyrirhöfn. Áður en texti er sendur í þýðingu er því gott að aðgæta eftirfarandi.
Er textinn í endanlegri útgáfu?
Oft liggur fólki á að koma þýðingarferlinu af stað og því vill það gjarnan senda texta strax til þýðingar, jafnvel þótt hann sé ekki fullfrágenginn eða enn eigi eftir að bæta við hann. Þetta leiðir sjaldnast til tímasparnaðar og kostar á endanum yfirleitt meiri tíma og peninga. Ef þrátt fyrir allt reynist nauðsynlegt að senda textadrög í þýðingu er mjög mikilvægt að halda vel utan um allar breytingar sem gerðar eru á skjalinu eftir að það er sent til þýðingar og merkja þær vel til að þýðandinn eigi auðveldara með að breyta þýðingunni eftir á.
Er textinn á skráarsniði sem hægt er að vinna með?
Það getur sparað mikinn tíma og kostnað að skila texta til þýðingar á sniði sem þýðendur geta auðveldlega unnið með. Til þess að hægt sé að nýta alla þá kosti sem þýðingaþjónustan býður upp á, svo sem þýðingaminni og hugtakagrunna, þarf að vera hægt að greina textann og vinna með hann, og í því tilliti henta ritvinnslusnið á borð við Microsoft Word afar vel, en texti á föstu sniði sem búið er að setja upp, eins og PDF-skjöl, krefst töluvert meiri vinnu. Skoðaðu allar þær skráargerðir sem við þýðum á.
Er textinn yfirlesinn?
Það getur skipt sköpum að frumtextinn sem á að þýða sé villulaus og hafi verið lesinn yfir. Bæði getur verið erfitt fyrir þýðendur að glöggva sig á textanum ef í honum eru villur og þar með sækist þýðingin hægar, og eins nýtast þýðingaminni og hugtakagrunnar illa þegar villur eru í texta þar sem forritin bera ekki kennsl á rangt rituð orð og setningar sem hugsanlega eru til í gagnagrunni.
Fylgja textanum fyrri þýðingar eða annað hliðsjónarefni?
Jafnvel þótt fyrri þýðingar á sama eða svipuðu efni séu ekki nógu góðar er alltaf gott að láta slíkt efni fylgja með textanum sem á að þýða. Þetta er sérstaklega mikilvægt til að hægt sé að halda samræmi í ýmsum hugtökum og heitum sem hugsanlega hafa þegar verið notuð og ætla má að lesendur kannist við. Eins er gott að láta aðrar upplýsingar fylgja ef þær eru tiltækar, t.d. vísa í vefsvæði fyrir vöru, þjónustu eða annað efni sem er til þýðingar og lista yfir hugtök sem óskað er eftir að séu notuð við þýðinguna eða jafnvel hugtök sem ekki á að þýða. Þegar hliðsjónarefni er sent með texta er gott að láta fylgja upplýsingar um að hversu miklu (eða litlu) leyti á að fylgja slíku efni.
Til hvers á að nota textann?
Það skiptir miklu hvað varðar kostnað og tíma að upplýsa um hvers eðlis textinn er sem sendur er til þýðingar og til hvers á að nota hann. Til dæmis er þörf á mismunandi þjónustustigi eftir því hvort textinn er ætlaður til innanhússnotkunar eða til almennrar birtingar. Texti sem aðeins er ætlaður til notkunar innanhúss og til glöggvunar krefst hugsanlega ekki jafnvandlegrar yfirferðar og texti sem ætlaður er til opinberrar birtingar og þannig er hægt að spara talsverðan kostnað. Þá er einnig gott að láta fylgja upplýsingar um ætlaðan lesendahóp textans, t.d. hvort hann á að vera formlegur eða afslappaður og fleira í þeim dúr.
Þarf að þýða allan textann?
Gott er að huga að því áður en ráðist er í þýðingu hvort allur frumtextinn eigi endilega erindi við lesendur þýdda textans. Þar sem þýðingar eru oftast nær verðlagðar út frá orðafjölda má spara nokkurt fé með því að ígrunda vel hvaða texta er nauðsynlegt að þýða og hverju má sleppa. Þetta er sér í lagi mikilvægt þegar þýða á texta yfir á mörg tungumál. Einnig má hugsa sér að endurskrifa texta þannig að hann eigi betur við lesendahópinn.
Ertu með réttan þýðanda fyrir textann?
Margir þýðendur eru afar fjölhæfir og geta þýtt margvíslegar gerðir texta, hvort sem um er að ræða lögfræðitexta, lyfjatexta, ferðamannabæklinga eða annað. Þó er algengara að þýðendur sérhæfi sig á tilteknum sviðum og því er gott að kynna sér hvort þýðandinn hafi þekkingu og reynslu á því sviði sem þýðingin fjallar um. Með því tryggirðu þér ekki aðeins betri þýðingu heldur getur líka sparað kostnað við þann tíma sem þýðandinn gæti annars þurft að eyða í rannsóknarvinnu og upplýsingaöflun.
Hvaða þjónustu ertu að kaupa?
Mikilvægt er að athuga hvort samlestur og/eða yfirlestur annars þýðanda eða prófarkalesara er innifalinn í verði þýðingarinnar. Ef svo er ekki getur það ýmist þýtt að þú þurfir að greiða sérstaklega fyrir yfirlesturinn eða falið í sér aukna hættu á villum. Einnig skaltu spyrjast fyrir um hvort gerð hugtakagrunns er innifalin í verðinu og hvort þýðingaminni er notað, því að hvort tveggja getur falið í sér mikinn sparnað ef um endurteknar þýðingar er að ræða.
Taktu spurningum frá þýðendum vel
Ekki er hægt að ætlast til þess að þýðandi viti allt um efnið sem hann er að þýða fyrir þig. Það boðar aftur á móti gott ef hann sendir þér fyrirspurnir og þú skalt endilega svara þeim fljótt til þess að þýðandinn geti haldið vinnu sinni áfram eða þurfi ekki að breyta of miklu eftir á, ef hann er hættur að búast við svari frá þér. Þar sem þýðingarvinna krefst gaumgæfilegrar yfirferðar á textanum er ekki ólíklegt að þýðandinn rekist á villur eða eitthvað sem er óskýrt í textanum og láti þig vita af því, og þannig geturðu bætt frumtextann í leiðinni.
Notar þýðandinn þýðingaforrit?
Þá erum við ekki að tala um Google Translate, heldur sérhæfðan hugbúnað sem auðveldar þýðendum vinnu sína með því að vista þýðingu setninga sem þá er hægt að nýta í síðari verkum. Með þeim má einnig telja endurtekningar í texta sem getur lækkað heildarorðafjölda þýðingarinnar og þar með dregið úr kostnaði. Við þýðingaforritin má tengja sérsniðna hugtakagrunna eða orðasöfn sem sett eru saman fyrir tiltekin svið eða viðskiptavini. Með því að nota þýðingaforrit og hugtakagrunna má tryggja samræmi þýðinga og spara tíma við leit að þýðingu orða eða fyrirspurnir. Þú getur séð öll þau þýðingaforrit sem við hjá Skopos notum á forsíðu.