Þýðingar fela í sér yfirfærslu merkingar texta af einu tungumáli yfir á annað. Þýðingar eru jafngamlar rituðu máli, og er elsta þekkta þýðing sem almennt er vitað um súmerska söguljóðið Gilgamesh-kviða sem ritað var á steintöflur fyrir nærri 4000 árum og þýtt á tungumál Suðvestur-Asíu á annarri öld f. Kr.
Hvað felst í þýðingu?
Þýðingar hafa ávallt verið mikilvægar til að fólk af ólíkum uppruna geti átt samskipti, en þó hafa þær að öllum líkindum aldrei verið mikilvægari en í alþjóðasamfélagi nútímans. Þegar minnst er á þýðingar dettur mörgum einna helst í hug bókmenntaþýðingar, en fólk leiðir oft ekki hugann að því á hversu mörgum og mismunandi sviðum þýðingar koma við sögu. Þar má meðal annars nefna þýðingar á fræðiritum og þýðingar skjátexta fyrir kvikmyndir og sjónvarp, en stærsti og fjölbreyttasti hópurinn er sá sem kallast einu nafni nytjaþýðingar. Í þennan flokk falla meðal annars þýðingar á ýmiss konar auglýsingatextum, handbókum, bæklingum, skiltum, fylgiseðlum lyfja, reglugerðum, hugbúnaði og ótal öðrum textum sem við rekumst daglega á án þess að velta því mikið fyrir okkur að þeir séu þýðingar.
Hvað þarf þýðandi að hafa til brunns að bera?
Þegar haft er í huga hversu margslungnar og fjölbreytilegar þýðingar geta verið má ljóst vera að oft þarf talsverða sérþekkingu til að þýða mismunandi gerðir texta, og því þurfa þýðendur bæði að sérhæfa sig á tilteknum sviðum og einnig notast við góð verkfæri sem tryggja að þýðingin verði í senn rétt og læsileg, hugtakanotkun sé samræmd og að þýðingin eigi við ætlaðan lesendahóp. Til þess að þýðingar verði góðar er mikilvægt að þýðandinn hafi góða þekkingu á bæði frummálinu og markmálinu, og raunar er nánast skilyrði að markmálið sé móðurmál þýðandans eða því sem næst. Þá þarf hann að hafa þekkingu á viðfangsefninu og koma sér upp góðum hugtakasöfnum á þeim sviðum sem þýðingar hans fjalla um. Auk þess þarf hann að hafa góða tilfinningu fyrir tilganginum eða markmiðinu með þýðingunni og lesendum hennar, þar sem nálgunin þarf ætíð að miðast við það, til dæmis hvað varðar málsnið, nákvæmni, orðanotkun og fleira.
Nýtjatextar og þýðingaforrit
Þeir sem fást við þýðingar á nytjatextum notast oftar en ekki við þýðingaforrit, sem hjálpa þeim að tryggja samræmi í þýðingunum, bæði hvað varðar orðalag og hugtakanotkun, auk þess sem það getur flýtt mjög fyrir við þýðingar á svipuðum textum eða textum á sama sviði. Hér er þó ekki átt við vélþýðingar á borð við Google Translate, heldur sérstök forrit sem halda utan um þýðingar eins eða fleiri þýðenda og gera þeim jafnframt kleift að búa til sértæka orðalista og sinna gæðaeftirliti á þýðingunum, til viðbótar við hefðbundinn yfirlestur og prófarkalestur.
Aukið mikilvægi þýðinga í nútímasamfélagi
Eftir því sem þörfin fyrir og eftirspurnin eftir þýðingum eykst, með sívaxandi alþjóðlegum samskiptum og hnattvæðingu, því mikilvægari verður tæknin sem aðstoðar við þýðingar, og gera má ráð fyrir að í framtíðinni verði vélþýðingar sífellt algengari og betri. Þar skiptir notendasamfélagið miklu máli, en mörg tæknifyrirtæki og samfélagsmiðlar, t.d. Google og Facebook, gefa notendum sínum kost á að aðstoða við þýðingar á vefsvæðum sínum og yfirferð á þýðingum annarra, sem smátt og smátt stuðlar að því að þessar þýðingar verði betri, áreiðanlegri og meira viðeigandi.
Ertu að íhuga kaup á þýðingum? Skoðaðu góð ráð fyrir kaupendur þýðinga.