Að ýmsu þarf að huga þegar þýðing er keypt í fyrsta sinn. Hér viljum við deila með þér nokkrum mikilvægum atriðum sem byggjast á reynslu okkar sem þýðendur á þýðingastofu og auðvelda þér að draga úr þýðingakostnaði en auka jafnframt gæði þýðinganna sjálfra.
- Það munar um hvert orð
Þegar kostnaður við þýðingu er áætlaður hafa margir þættir áhrif. Sá stærsti er án efa orðafjöldi textans sem á að þýða. Reyndu eftir fremsta megni að hafa textann beinskeyttan. Lagfærðu textann áður en þú sendir hann í þýðingu, búðu til textaeiningar sem hægt er að þýða einu sinni og nota síðan aftur og forðastu málalengingar. Í einföldu máli er besta leiðin til að draga úr þýðingakostnaði að fækka þeim orðum sem þarf að þýða.
- Þýðingaminni getur dregið úr kostnaði – en það er samt ekki lausn á öllum vanda
Flestir þýðendur nota (eða ættu að nota) memoQ og önnur þýðingaforrit til að vista og endurnýta þýddan texta og spara þannig bæði tíma og draga úr kostnaði. það er hins vegar mikilvægt að hafa í huga að þýðingar sem eru vistaðar í þýðingaminni og notaðar aftur verða aldrei betri en upphaflega þýðingin og því er brýnt að vera vandlátur þegar þýðendur eru ráðnir til verka. Þýðingaminni hjálpa vissulega til og spara kostnað. Þau eru hins vegar ekki töfralausn.
- Mikilvægt er að huga að skráargerðum
Ekki henta öll rafræn skráarsnið jafnvel þegar kemur að þýðingum. Sum snið henta þýðingaforritum einstaklega vel og styðja betur en önnur snið við stafmerki og orðskiptingar í erlendum tungumálum. Einnig skiptir umbrot skjala miklu máli. Ef orðin sem á að þýða er t.d. að finna í myndrænu umbroti getur það haft í för með sér viðbótarkostnað vegna aukaskrefa við þýðingu. Því er mikilvægt að hafa samráð við þýðandann eða þýðingastofuna varðandi ólíkar skráargerðir og uppsetningu til að flýta fyrir þýðingunni.
- Breytingar geta verið dýrar
Allar breytingar og viðbætur kalla á kostnað vegna samlestrar. Þess vegna er alltaf farsælast að tryggja að skjal sé í endanlegri útgáfu áður en vinnan við þýðinguna hefst. Eftir að texti hefur verið þýddur og vistaður í þýðingaminni getur verið tímafrekt að gera einföldustu breytingar, t.d. skipta orðinu „umboð“ út fyrir orðið „söluaðili“. Og þá fer sparnaðurinn fyrir lítið.
- Þú færð það sem þú borgar fyrir
Þú gætir freistast til þess að nota ekki sérstaka þýðingastofu eða reyndan þýðanda heldur nýta þér „ódýrari“ lausn – t.d. gjaldfrjálsa þýðingaþjónustu á netinu eða vin sem bjó á Ítalíu í eitt ár. Hvorugur kosturinn er góður. Þýðingar eru sérfræðigrein og þýðendur þurfa að kunna bæði tungumálin reiprennandi, hafa þekkingu á efni hvers einasta texta, vera mjög vel ritfærir og hafa alla málfræði á hreinu. Þeir þurfa auk þess að vera menntaðir, reyndir og hæfileikaríkir og með aðgang að réttu verkfærunum til að vinna verkin.
- Fagþýðendur þýða yfirleitt betur en sölumenn og annað starfsfólk
Starfsfólk þitt þekkir að sjálfsögðu þá vöru eða þjónustu sem þú býður upp á, sem og ýmislegt orðfæri sem henni tengist. En þýðingar eru einfaldlega ekki þeirra fag. Starfsfólkið þitt sinnir ótal mikilvægum verkefnum og stundum veltur afkoma þeirra og starfsframi t.d. á sölulaunum eða frammistöðu í mikilvægum verkefnum – sem leiðir til þess að þýðingin lendir neðst á forgangslistanum. Auk þess er alls ekki víst að starfsfólkið búi yfir þeirri færni, þekkingu og menntun sem er nauðsynleg til að skila vandaðri og nákvæmri þýðingu.
- Allir tapa ef asinn er mikill
Ef þú lætur vinna þýðingarverk í flýti kemur það niður á gæðum og hefur í för með sér aukinn kostnað. Óraunhæfur skilafrestur kemur í veg fyrir að þýðandi geti kynnt sér efni textans nægilega, flett upp í hliðsjónarefni eða spurt réttu spurninganna. Gefðu þýðandanum þann tíma sem þarf til að vinna verkið. Þegar upp er staðið muntu ekki sjá eftir því.
- Miklar upplýsingar eru góðar upplýsingar
Það veldur þér engum aukakostnaði að senda hliðsjónarefni með textanum sem á að þýða, en það auðveldar þýðandanum að vinna verkið fagmannlega. Láttu fyrri þýðingar, hugtakalista, lista yfir fagorð úr þinni atvinnugrein og vörulista fylgja með – hvaðeina sem varpar betra ljósi á efnið sem á að þýða. Best er að sjálfsögðu að svara öllum spurningum sem þýðandinn kann að spyrja eins fljótt og hægt er. Eftir því sem þú veitir meiri upplýsingar aukast gæði þýðingarinnar.
- Sumt efni er erfiðara að þýða en annað
Staðlað viðskiptabréf er leikur einn – en tæknilegar leiðbeiningar fyrir vinnuvél geta aftur á móti verið mikill hausverkur. Varahlutalistar með löngum upptalningum geta verið sérlega krefjandi vegna skammstafana, skorts á samhengi og sérstaks orðfæris sem jafnvel fagmenn einir þekkja. Auglýsingatextar og skáldaðir textar kalla á mikla íhugun og víðtækar lagfæringar vegna þess að þýðandinn þarf að taka tillit til menningarmunar á milli samfélaga. Kostnaður við þýðingar er í beinu samhengi við það hversu erfið og flókin þýðingin er.
- Þú ert við stjórnvölinn – láttu ekki yfirlesarann halda þér í gíslingu
Stundum færðu einhvern til að lesa þýðingu yfir og viðkomandi tekur sér mánuð í verkið – jafnvel þótt aðeins hafi tekið þrjá daga að ljúka við þýðinguna. Láttu ekki annasama vinnudaga koma í veg fyrir að lokið sé við þýðinguna. Ef yfirlesarinn bregst þér og skilar seint eða illa er einfaldlega best að fá annan í verkið eða jafnvel sleppa yfirlestrinum.