Af hverju er ódýrara að þýða sum skjöl en önnur? Grunnreglan er sú að ef orðafjöldinn sem á að þýða er margfaldaður með uppgefnu verði fyrir hvert orð fæst verðið fyrir þýðinguna. Því miður segir það hins vegar ekki alla söguna. Góð þýðing verður til í mörgum skrefum og heildarverð þýðingar er summa þessara skrefa. Á síðustu árum hefur notkun þýðingatækni flækt verðlagningu á þýðingum.
Þýðingatækni kom á markað fyrir um 15 árum og hefur síðan þá verið mikið notuð við þýðingar. Þýðingahugbúnaður (Trados®, Déjà Vu®, memoQ® og fleiri) gerir þýðendum kleift að vista og nota áður þýddar setningar aftur og aftur með aðstoð þýðingaminna og draga þannig bæði úr kostnaði og stytta skilafrest. Þó svo að þýðingaminni dragi vissulega úr kostnaði við þýðingar þegar til lengri tíma er litið flækja þau einnig ferlið í sumum tilvikum. Ástæðan er sú að ekki er hægt að nota þýðingaforrit með birtingarforritum (e. publishing programs) eins og PageMaker®, InDesign og FrameMaker og því er ekki alltaf hægt að koma frumtextanum inn í þýðingaforrit án þess að forvinna hann
Hér eru taldir upp nokkrir þættir sem teknir eru til athugunar þegar kostnaður við þýðingu er metinn:
- Meta þarf kostnaðinn við undirbúning skráa. Góðu fréttirnar eru hins vegar þær að kostnaðurinn er enginn ef textinn er í ritvinnsluforriti líkt og Word eða Excel. Ef eingöngu er til PDF-skjal er nauðsynlegt að búa til hreina textaskrá sem hægt er að þýða í þýðingaforriti. Tíminn sem það tekur að undirbúa skrána hefur áhrif á kostnaðinn.
- Verð fyrir hvert orð er ákveðið og nær það yfir þýðingu og yfirlestur. Verð er mismunandi eftir tungumálum og getur munurinn verið töluverður. Til að mynda er yfirleitt mun ódýrara að þýða af ensku yfir á spænsku en á finnsku eða hebresku. Ástæðurnar fyrir þessu geta verið margvíslegar. Meðal þeirra er hversu mikið efni hefur áður verið þýtt á viðkomandi tungumál, aðgangur að hjálparefni og svo fjöldi þýðenda í viðkomandi landi.
- Verð fyrir hvert orð fer einnig eftir því hversu flókinn textinn er. Því flóknari sem textinn er því lengri tíma tekur þýðingin (og því meiri er kostnaðurinn). Efnislista er sérstaklega erfitt að þýða þar sem þeir innihalda sérheiti þar sem lítið sem ekkert samhengi er til staðar. Þeir kalla því oftast á mikla rannsóknarvinnu. Rannsóknir í læknisfræði eru einnig krefjandi; fáir þýðendur hafa menntun eða þekkingu til að sinna slíkri vinnu og þeir fáu sem það hafa taka því hærra verð fyrir.
- Orðafjöldinn sem á að þýða er reiknaður með því einfaldlega að telja öll orðin í skjalinu. Orð sem eru falin í myndaskrám eru einnig tekin með í talningunni. Heildarorðafjöldinn er svo margfaldaður með verði á orð. Því fleiri orð sem þarf að þýða, því dýrari verður þýðingin. Hér geta verkkaupar haft bein áhrif á hvað þýðing kostar með því að draga úr orðafjöldanum sem á að þýða og þannig einnig úr kostnaðinum.
- Endurþýðing kostar alltaf minna en frumþýðing. Þýðendur og þýðingastofur gefa (eða ættu að gefa) afslátt af setningum sem koma upp úr þýðingaminni. Að sama skapi er afsláttur gefinn vegna innra samræmis í textanum.
- Tíminn sem fer í stafræna letursetningu (skjáborðsútgáfu) er metinn. Þegar textinn er þýddur og hann vistaður í þýðingaminni þarf að færa hann aftur í upprunalega forritið og sníða hann. Kostnaðurinn er áætlaður út frá tímanum sem það tók að undirbúa skjalið til birtingar, þar á meðal laga leturgerð, stíl, línubil, leturbil, orðskiptingu, myndræna útfærslu o.s.frv. Því flóknara sem upprunalega útlitið er, því meiri tíma tekur undirbúningurinn Og sum forrit henta einfaldlega ákveðnum tungumálum betur en önnur.
- Tíminn sem fer í gæðaferli er metinn. Í þessu felst tíminn sem þýðendur og sérfræðingar í myndrænni útfærslu fá til að fara yfir lokaafurðina áður en hún er send til viðskiptavinarins.
- Tíminn sem fer í verkefnastjórnun er metinn. Umsjón með þýðingu felur í sér stjórnun og athugun á verkinu til að ganga úr skugga um að þýðingin sé rétt unnin og að öllum skrefum staðalsins EN-15038 hafi verið fylgt.
- Aðrir þættir geta einnig haft áhrif á kostnaðinn. Breytingar og viðbætur sem verða eftir að verkið er hafið lengja tímann sem það tekur og kostnaðurinn eykst. Breytingar sem yfirlesarar í útgáfulandi gera kunna að hafa áhrif á verðið, þá sérstaklega ef þeir verða of duglegir með rauða pennann og endurskrifa allt skjalið. Lágmarksgjald er tekið fyrir þýðingar á smáverkum. Stundum bætast flýtigjöld við ef þýðendur þurfa að vinna yfirvinnu til að skila á tilsettum tíma.
Fyrir 25 árum var frekar einfalt að reikna kostnað þýðinga, enda engir gæðastaðlar til staðar. Með tilkomu þýðingaforrita og ítarlegri gæðakrafna er mun erfiðara að verðleggja þýðingar. Framangreindir þættir eru þeir sem helst hafa áhrif á verðlagningu og þá þarf að taka til athugunar. Næst þegar þú ætlar að hringja í þýðingastofu og spyrja um verð skaltu því hafa í huga að orðafjöldinn gegnir veigamiklu hlutverki en er þó aðeins hluti af heildarmyndinni.