SDL Trados er þýðingahugbúnaður sem var upphaflega þróaður af þýska fyrirtækinu Trados GmbH. Í dag fæst SDL Trados hjá fyrirtækinu SDL plc sem býður upp á ýmsar skýjalausnir til að tryggja sem besta upplifun viðskiptavina. SDL Trados hefur lengi verið leiðandi á markaðnum og er mikið notað af sjálfstætt starfandi þýðendum, þýðingastofum, þýðingadeildum innan fyrirtækja og háskólastofnunum.

Saga Trados

Þýðingaþjónustan Trados GmbH var stofnuð árið 1984 af Jochen Hummel og Iko Knyphausen í Stuttgart í Þýskalandi. Fyrirtækið hóf að þróa þýðingahugbúnað seint á 9. áratugnum og gaf út tvo fyrstu meginhluta hugbúnaðarpakkans fyrir Windows snemma á 10. áratugnum – MultiTerm sem kom út árið 1992 og Translator’s Workbench sem kom út árið 1994. Fyrirtækið hlaut mikinn meðbyr árið 1997 þegar Microsoft ákvað að nota Trados fyrir allar hugbúnaðarþýðingar sínar innanhúss. Á síðari árum hefur Microsoft hins vegar fært sig æ meira yfir í annan hugbúnað, ásamt því að þróa sinn eigin þýðingahugbúnað.

Studd skjalasnið

SDL Trados Studio styður yfir 70 mismunandi skráasnið, þar á meðal SGML, XML, HTML, XLIFF og SDLXLIFF (sem er sérstakt þýðingasnið fyrir Studio), OpenDocument-skrár, hreinar textaskrár, skrár sem innihalda frumkóða á borð við Java og Microsoft.NET, Microsoft Word, Excel, tvímála Excel-skrár og PowerPoint-skrár og viss Adobe-skráasnið eins og PDF-, skannaðar PDF FrameMaker-skrár (þ.m.t. OCR), InDesign- og InCopy-skrár.

Innleiðing vélþýðinga og yfirlestur vélþýðinga

Líkt og í öðrum þýðingahugbúnaði hefur möguleikinn á vélþýðingum og yfirlestri þeirra verið innleiddur í SDL Trados Studio. Þegar þýðandinn hefur valið réttar stillingar í SDL Trados Studio fær hann upp vélþýðingu þess textabrots sem hann þýðir hverju sinni, ef engin niðurstaða fæst úr þýðingaminninu sem hann styðst annars við. Þá getur þýðandinn nýtt sér vélþýðinguna eftir að hann hefur farið yfir hana og breytt henni eftir þörfum. SDL Trados styður eftirfarandi vélþýðingakerfi: Language Weaver, SDL BeGlobal, SDL LanguageCloud og Google Translate. SDL Trados Studio styður einnig notkun annarra vélþýðingakerfa eins og Microsoft Translator í gegnum opin forritaskil.

Markaðshlutdeild

Árið 2004 var áætluð markaðshlutdeild Trados 75% af heimsmarkaðnum. Með tilkomu nýrra þýðingaforrita hefur sú markaðshlutdeild hins vegar skroppið saman og er nú undir 50%

Gagnrýni

SDL Trados hefur líka fengið sinn skerf af gagnrýni vegna ýmissa vankanta, eins og til dæmis vegna skorts á afturvirku samhæfi hugbúnaðarins.

Ráðist hefur verið í gerð fjölda lausna sem eiga að gera hugbúnaðinum kleift að meðhöndla mismunandi útgáfur Trados-skráasniða en þær eru ekki fullkomnar. SDL hefur einnig reynt að svara gagnrýni notenda hvað varðar flókna leyfisveitingu hugbúnaðarins og einfaldaði til að mynda leyfiskerfið fyrir útgáfuna á SDL Trados Studio 2011 Freelance.

Nýjast útgáfa hugbúnaðarins er Trados Studio 2017 sem kom út snemma á þessu ári.

Greinin birtist fyrst á enska hluta Wikipediu.