Almennir skilmálar

GILDISSVIÐ

Eftirfarandi viðskiptaskilmálar skulu ná yfir alla verksamninga milli Skopos og viðskiptavina þess, nema annað sé samþykkt skriflega.

 

TILBOÐ OG SAMÞYKKI

Aðeins er hægt að leggja fram bindandi tilboð eftir að allir skilmálar eru ljósir. Þar með talið er allur frumtexti til þýðingar, lýsing á tilgangi þýðingar og markhópi sem og allar aðrar upplýsingar sem eru nauðsynlegar til að hægt sé að ljúka verkinu.

Viðskiptavinurinn skal fara með tilboð Skopos sem trúnaðarmál og ekki afhenda það eða birta þriðja aðila. Ef slíkt á sér stað á Skopos rétt á skaðabótum vegna þess skaða sem fyrirtækið verður fyrir.

Tilboð Skopos gildir í 20 daga frá dagsetningu þess nema annað sé skriflega samþykkt. Eftir þann tíma er Skopos ekki bundið af tilboðinu. Tilboð teljast bindandi eftir að Skopos hefur fengið skriflegt samþykki frá viðskiptavininum, og telst staðfesting í tölvupósti þar með.

Síðari breytingar á tilboðum, þar með talið viðbætur og viðbótarsamningar, þarfnast skriflegs samþykkis Skopos til að þær taki gildi gagnvart viðskiptavininum. Ef slíkar breytingar leiða til þess að lengri tíma taki að ljúka verkinu skal afhendingarfresturinn sem samþykktur var í upphafi verksins lengjast um samsvarandi tíma.

 

VERÐ

Tilboð eru án virðisaukaskatts nema annað sé tilgreint.

Ef verk er unnið gegn föstu gjaldi er Skopos heimilt að innheimta sérstaklega fyrir vinnu vegna óska um breytingar á pöntun og/eða upprunaefni, eða beiðni um þjónustu sem ekki er innifalin í samningnum (viðbótarvinnu).

Ef viðskiptavinur hættir við verk skal hann greiða fyrir þá vinnu sem þegar hefur farið fram og, þar sem við á, greiða fyrir greiningu og undirbúning þess hluta verksins sem ekki hefur verið inntur af hendi. Skopos afhendir viðskiptavininum það efni sem tilbúið er, fari hann fram á það.

Geri viðskiptavinur breytingar á texta sem Skopos skilar mun Skopos færa breytingarnar inn í þýðingaminni innan tveggja vikna frá þeim degi sem Skopos fær breytingarnar í hendur. Sé breytingum ekki skilað innan tveggja vikna áskilur Skopos sér rétt til að líta á vinnu við breytingar sem sérstakt verk og innheimta tímagjald í samræmi við það.

 

SKULDBINDINGAR VIÐSKIPTAVINAR

Viðskiptavinur ber ábyrgð á innihaldi efnis sem hann afhendir Skopos. Þetta efni nær yfir upprunaefni sem á að vinna með, svo og leiðbeiningar og aðrar nauðsynlegar upplýsingar sem viðskiptavinurinn leggur til.

Viðskiptavinur ber jafnframt ábyrgð á yfirferð og samþykki á því efni sem hann fær í hendur.

 

SKULDBINDINGAR SKOPOS

Skopos skal sinna pöntunum allra viðskiptavina af fagmennsku og í samræmi við þær leiðbeiningar og þau fyrirmæli sem koma fram í pöntuninni.

Skopos skal leggja sig fram um að veita viðskiptavininum bestu mögulegu þjónustu hvað varðar nákvæmar og réttar upplýsingar, reikninga o.s.frv.

 

VILLUR OG ANNMARKAR

Eftir að Skopos afhendir viðskiptavini fullunnið efni ber viðskiptavinurinn ábyrgð á að fara yfir efnið. Ef viðskiptavinur vill gera athugasemdir skal hann tilkynna Skopos slíkt tafarlaust og tilgreina vankanta um leið og þeir finnast eða hefðu átt að finnast, þó ekki síðar en 30 dögum eftir afhendingu. Ef viðskiptavinurinn kemur umkvörtunum sínum ekki til skila innan þessa tíma er Skopos ekki skuldbundið til að taka þær til greina.

Ef villur eða ágallar eru slíkir að ekki er hægt að nota efnið í tilætluðum tilgangi á viðskiptavinurinn rétt á afslætti af verðinu í samræmi við villur eða ágalla, eða hann getur farið fram á að Skopos ljúki verkinu á viðeigandi hátt. Ef viðbótarfrágangur leiðir til þess að afhending tefst og ljóst er að töfin veldur því að viðskiptavinurinn getur ekki nýtt efnið hefur viðskiptavinurinn rétt á að rifta samningnum.

Viðskiptavinurinn gerir sér grein fyrir að hægt er að þýða eða túlka skjal á mismunandi vegu. Viðskiptavinurinn samþykkir einnig að oft og tíðum er ekki hægt að þýða orð eða setningu á fullkominn máta.

Galla í afhentu efni skal leiðrétta innan viðunandi tíma á kostnað Skopos. Ef þetta á sér ekki stað á viðskiptavinurinn, eftir að hafa sett fram kröfu með sanngjörnum skilafresti, rétt á að rifta samningnum, biðja um afslátt af verði eða fara fram á bætur.

 

TAFIR

Ef Skopos eða viðskiptavinurinn sér að ekki er hægt að standa við samþykktan afhendingartíma skal hinum aðilanum tilkynnt um slíkt án tafar. Í slíkum tilvikum skal einnig útlista ástæðu tafarinnar og á hve löngum tíma er hægt að uppfylla samninginn.

Ef töfin er á ábyrgð Skopos getur viðskiptavinurinn rift samningnum ef:

– ljóst er út frá samningnum eða öðrum kringumstæðum að viðskiptavinurinn getur ekki nýtt sér verkið eftir tiltekinn tíma og augljóst er að ekki er hægt að ljúka verkinu í tíma.

– viðskiptavinurinn tilkynnti Skopos skilmerkilega að afhendingin ætti að vera á réttum tíma á samþykktri dagsetningu og viðskiptavinurinn hefur uppfyllt skuldbindingar sínar á réttum tíma í samræmi við samninginn.

Ef töfin er á ábyrgð viðskiptavinarins á Skopos rétt á skaðabótum vegna kostnaðar sem af töfinni hlýst.

 

TAKMÖRKUN BÓTA

Skopos er ekki bótaskylt vegna óbeins tjóns viðskiptavinarins – til dæmis vegna framleiðslutjóns, minni hagnaðar eða skaðabóta sem viðskiptavinur þarf að greiða viðskiptavinum sínum eða öðrum – sem af hlýst vegna villna, galla, tafa eða annarra ágalla af hendi Skopos, að því gefnu að Skopos hafi ekki sýnt af sér vítaverða vanrækslu.

Bótaábyrgð vegna beins tjóns takmarkast við samþykkt verð fyrir umrætt verk, svo framarlega sem Skopos hefur ekki orðið uppvíst að vítaverðri vanrækslu. Aftur á móti er Skopos ekki bótaskylt vegna beins tjóns sem ekki var hægt að sjá fyrir við undirritun samningsins.

Skopos þarf ekki að greiða skaðabætur vegna verka ef viðskiptavinur hefur ekki upplýst að hann hyggist nota lokaþýðingu í póstsendingu/dreifingu til fleiri en 100 einstaklinga, þ.m.t. í tölvupósti eða birtingu á internetinu.

 

ÓVIÐRÁÐANLEG ATVIK

Eftirfarandi aðstæður flokkast undir óviðráðanleg atvik, ef þær koma til eftir undirritun samnings – eða á undan, ef afleiðingar þeirra voru ekki fyrirsjáanlegar fyrir undirritun samningsins – og ef ekki er hægt að uppfylla samninginn þeirra vegna, tafir verða verulegar eða kostnaður eykst: vinnudeilur eða aðrar aðstæður sem samningsaðili hefur ekki stjórn á, svo sem eldur, vörslutaka, gjaldeyrishöft, bilanir í vélum með sértæka virkni sem ekki var hægt að sjá fyrir og koma í veg fyrir með viðhaldi tæknifólks og tafir á afhendingu frá undirverktökum af þeim orsökum sem taldar eru upp hér að framan. Óviðráðanleg atvik sem upp koma losa báða aðila undan bótaskyldu vegna seinkaðrar afhendingar og veita þeim rétt til að krefjast framlengds afhendingarfrests.

Aðili sem ætlar sér að bera fyrir sig óviðráðanlegt atvik þarf að tilkynna mótaðilanum það, ef því verður við komið, innan viðunandi tímabils eftir að atvikið átti sér stað eða hægt var að sjá það fyrir.

Ef seinkun á því að samningur sé uppfylltur er umfram sex mánuði þegar um óviðráðanlegt atvik er að ræða geta báðir aðilar rift samningnum skriflega.

TRÚNAÐUR OG VISTUN SKJALA

Skopos heitir fullum trúnaði gagnvart öllum upplýsingum og öllum skjölum sem meðhöndluð eru innan fyrirtækisins vegna verks fyrir viðskiptavininn.

Skopos hefur ekki heimild til að birta neitt sem tengist efni í eða vitneskju um þessar upplýsingar öðrum aðila en þeim sem þarf að nota upplýsingarnar svo að hægt sé að vinna verkið fyrir viðskiptavininn. Skopos gerir trúnaðarsamkomulag við alla verktaka.

Skopos mun tryggja að allt efni sem móttekið er frá viðskiptavininum sé vistað þannig að tryggt sé að trúnaðarkvöð sé uppfyllt.

Við samningslok mun Skopos, að beiðni viðskiptavinar, eyða öllu efni frá viðskiptavini sem ekki þarf að nota síðar meir í samstarfi aðilanna tveggja.

GREIÐSLUSKILMÁLAR

Reikningar skulu greiddir 20 dögum eftir útgáfu þeirra. Ef greiðslur dragast áskilur Skopos sér rétt til að innheimta dráttarvexti sem samsvara gildandi afsláttarkjörum + 8%. Greiðsla dráttarvaxta kemur ekki í veg fyrir að Skopos fari fram á bætur vegna frekara tjóns sem til er komið vegna þess að viðskiptavinurinn uppfyllti ekki greiðsluskyldu sína.

Viðskiptavinurinn getur ekki dregið frá eða haldið eftir hluta kaupverðs vegna gagnkrafna nema Skopos hafi veitt skriflegt leyfi fyrir slíku.

Ef reikningurinn er ekki greiddur 10 dögum eftir gjalddaga getur Skopos hætt allri vinnu sem tengist verkinu og haldið eftir öllu efni þar til staðfesting þess efnis að reikningurinn hafi verið greiddur er send Skopos.

Allar spurningar um greiðslur skal senda á skopos@skopos.is.

 

SAMNINGI RIFT

Ef um er að ræða alvarlegt brot á samningi geta aðilar rift samningi tafarlaust. Ef um er að ræða augljósa ágalla á gæðum þjónustu Skopos getur viðskiptavinurinn rift samningnum tafarlaust.

Aðilar geta einnig rift samningi tafarlaust ef annar hvor aðilinn er lýstur gjaldþrota, hann tekinn til gjaldþrotaskipta eða hefur nauðasamninga við lánardrottna sína.

Skopos getur rift samningnum ef viðskiptavinurinn uppfyllir ekki greiðsluskyldu sína eða kemur í veg fyrir eða gerir Skopos á annan hátt ómögulegt að sinna verkinu samkvæmt þessum samningi. Í slíkum tilvikum á Skopos rétt á fullri greiðslu fyrir þá vinnu sem innt hefur verið af hendi við riftun.

 

VIÐEIGANDI LÖG OG LAUSN DEILUMÁLA

Ágreining milli aðila skal leysa í samræmi við íslensk lög, án tillits til alþjóðalaga.

Héraðsdómur Reykjavíkur skal vera varnarþing alls ágreinings milli Skopos og viðskiptavinarins.

SKILMÁLAR SAMNINGSINS

Ef einhverjir skilmálar þessa samnings falla úr gildi eða ekki er hægt að framfylgja þeim í samræmi við viðeigandi samþykktir skulu aðilar, með gagnkvæmu samkomulagi, skipta út ógildum eða óframfylgjanlegum ákvæðum fyrir gild, viðeigandi ákvæði, að því leyti sem hægt er, fyrir tilgang upphaflegs ákvæðis og samningsins í heild.